Equitable Consulting Practice

Orð eru ekki tóm

Upphaflega var þessa grein skrifuð á  ensku, eftir útkomu krossgátu blaðsins (Barnagátur 2023). Eftir uppákomuna á N1 mótinu juli 2023 þýddi ég hana yfir á íslensku og bætti við hana kafla um fótboltamótið.

 

Í desember s.l. var ég að elda ásamt börnunum mínum og syngja með jólalögum álista settum saman af Langholtskirkju, hverfiskirkjunni okkar, fyrir sunnudagaskólann. Mér brá heldur í brún þegar niðrandi söngvar tóku að óma í gegnum hátalarana. Söngvar sem notuðu orð sem smætta fólk af tilteknum hörundslit, dökkum hörundslit vitanlega. Ég er svört kona sem á hörundsdökk börn, þau eru íslensk og syngja á íslensku. Mér var ekki skemmt. Ég skrifaði streymisveitunni sem í hlut átti, Tidal, og hvatti þau til að fjarlægja þessi lög úr safni sínu, sem þau og gerðu. 

Það var síðan ekki langt liðið á árið 2023 þegar Sunnudagsblað Morgunblaðsins birti krossgátu sem notaði niðrandi og smættandi orð af sama toga. Viku seinna kom út krossgátublað fyrir börn sem notaði sömu eða sambærileg orð í einni krossgátunni.

 

Nú í sumar fylgdum við hjónin 11 ára gömlum syni okkar á N1 fótboltamótið á Akureyri. Mótið var vel skipulagt og skemmtilegt í alla staði, fyrir flesta. Sonur okkar varð ítrekað fyrir athugasemdum mótherja, sem vísuðu í hörundslit hans og ætlaðan uppruna. Annar drengur dökkur á hörund mátti þola svo ljót uppnefni að sá sem lét þau falla var sendur heim. Þetta eru 11 og 12 ára gamlir drengir. Þeir finna þetta ekki hjá sjálfum sér, þetta eru lærðir fordómar sem þeir hafa lært í umhverfi sínu, af foreldrum, fjölskyldu, samfélagsmiðlum og samfélaginu almennt. 

Fólk lætur eins og notkun þessara orða sé til umræðu, að það sé hægt að réttlæta notkun þeirra með vísan í einhverja menningu (ómenningu?) eða frelsi. Hvaða tilgangi þjónar notkun þessara orða, af hverju vill fólk verja notkun þeirra? Er það einhver spurning hvort hörundsdökk börn eigi að njóta sömu virðingar og önnur börn – sama frelsis til að vera þau sjálf, eins og þau eru?

Við tölum um að komandi kynslóðir muni gera betur, allt horfi til betri vegar. Á meðan notar fólk í valdastöðum smættandi orð um hörundsdökkt fólk, kirkjur syngja söngva með níðyrðum, barnakrossgátur innihalda smánandi tungutak og dagblöð líka. Er von til að börnin læri betri siði ef fullorðið fólk heldur svona óþverra að börnunum? Ungur nemur, gamall temur.

Bandaríski rithöfundurinn og mannréttindafrömuðurinn, James Baldwin, spurði hvíta samferðamenn sína, hví þeir hefðu fundið upp slík orð? Hann sagði einnig:

„Það sem hvítt fólk þarf að gera, er að leita djúpt í hjartarótum sínum að ástæðum þess að N…i var þeim nauðsynlegur til að byrja með? Af því, ég er ekki N…i, ég er maður. Ef ég er ekki N…i og hvíti maðurinn fann hann upp, þá þarf hvíti maðurinn að komast að því af hverju það var, hvað bjó að baki? Það er ekki mitt að svara fyrir það.“

 

A photo of a cross word in Króssgotublaðið’s children’s crossword book, Barnagátur, published in 2023. In the top row, the clue is “n*gri” and the solution “svertingi”. barnakrossgáta í Barnagátur (2023). Í efstu röð má sjá að vísbendingin er orðið n…i og lausnin er svertingi. Hvoru tveggja eru smættandi orð notuð yfir hörundsdökkt fólk.

Ég fæddist í Kenía og heyrði ekki N-orðið nema i sjónvarpi, bíómyndum og lagatextum. Enginn kallaði mig þessu orði í heimalandi mínu. Síðan þá hef ég ferðast til yfir 90 landa, ýmist vegna vinnu eða á eigin vegum, en það var ekki fyrr en ég flutti til Íslands sem ég heyrði N-orðinu beint að mér. Það sem verra var, það voru grunnskólabörn sem kölluðu á eftir mér. Þegar það gerðist fyrst varð ég svo hissa að ég sagði ekkert, ég hugsaði bara með mér, af hverju vilja þessi börn uppnefna mig? Hvað þýðir þetta orð í raun fyrir þeim?

Einn dag á leið heim frá vinnu kölluðu unglingar þetta sama orð á eftir mér. Ég stoppaði og spurði þau hvort þau væru n-orð, þau skömmuðust sín og hlupu í burtu.  Annað skipti var ég með eiginmanni mínum, sem er hvítur, þegar hópur unglinga kallaði þetta orð að okkur, þetta voru ungir drengir í fótboltaliði sem áttu leið hjá. En, það eru ekki bara unglingar sem eru hugfangnir af þessum orðum, ég hef þurft að eiga samtöl við vinnufélaga og kunningja, eða sitja undir yfirheyrslum öllu heldur, um það hvort eða ekki þau ættu að nota þessu orð og þá af hverju ekki? Af hverju þarf svört manneskja að sitja undir slíkum spurningum, þegar það ætti að vera augljóst að hún er bara sama manneskjan og þú. Er það mín ábyrgð að kenna þér að meta manneskjur fyrir það sem þær eru?

A photo of a crossword puzzle taken from Morgunblaðið, Sunday, April 30, 2023. The clue is “svertingi” and the solution is “s*rtur”. Both terms are derogatory, the latter being an aggressive slur.Mynd af sunnudagskrossgátu Morgunblaðsins 30. apríl 2023. Vísbendingin er svertingi og lausnin er su..ur. Hvoru tveggja eru smættandi orð notuð yfir hörundsdökkt fólk og seinna orðið er hreinlega niðrandi.

Þegar ég sá þessar krossgátur á árinu 2023, kom það mér ekkert á óvart að við heyrum þessi orð úr munni unglinga úti á götu. Ekki að þau liggi yfir krossgátum alla daga, en orðin eru greinilega töm þeim sem eldri eru og hafa þau fyrir víðar en í krossgátum sínum. Það eru hin raunverulegu vonbrigði. Maðurinn minn hafði samband við söluaðila og kom því til leiðar að Barnagátan (2023) var tekin úr sölu hjá öllum stærstu söluaðilum, í tilfelli Morgunblaðsins var það vitanlega orðið of seint og …. hver les það svo sem í dag? Aðgerðin komst í fréttir, Barnagátan var tekin úr sölu.  Útgefandi Barnagátunnar hefði í viðtalinu getað notað tækifærið til að biðjast afsökunar og velta fyrir sér áhrifum slíkrar orðnotkunar á ungt fólk og samfélagið, en í stað þess notaði hann tækifærið til að barma sér yfir fjárhagslegu tapi við það að blaðið var tekið úr sölu og líkir notkun N-orðsins við uppnefni yfir hvíta menn. Án þess að gera sér nokkra grein fyrir því að mannkynssagan geymir ekki sögur af því að hvítir menn hafi verið ofsóttir, myrtir og útilokaðir vegna húðlitar síns.

Við verðum að vera heiðarleg og viðurkenna að  gildishlaðin smættandi orð sem notuð eru um fólk vegna hörundslitar, verða ekki skilin frá þeirri sögu sem notkun þeirra byggir á. Þau fela í sér hatur, fyrirlitningu, sársauka og nauð. Því er ekki hægt að neita. Ég vona að þeir sem nota þessi orð og verja notkun þeirra velti fyrir sér hvað felst í orðunum, hver er saga þeirra og hvað felur notkun þeirra í sér, fyrir þá sem fyrir verða.  Kannski sjá þeir ljósið og velja að vera börnum betri fyrirmynd.

Á endanum er það á ábyrgð samfélagsins, ábyrgð okkar allra,  að meta áhrif slíkrar orðnotkunar og reyna að vera börnum okkar betri fyrirmyndir.

You’ll also like

BEYOND REPRESENTATION:

ADVANCING INSTITUTIONAL EQUITY IN CHILDREN’S FOOTBALL   11 SEPTEMBER, 2023​   As the phrase “Representation matters” gains prominence in our society, it’s crucial to delve

Read More »